Tönnies Daníel Bernhöft var fæddur 10. júlí 1797 í Neustadt í Holtsetalandi. Faðir Tönnies var Jóachim Michael Bernhöft, fæddur í bænum Krempe í Slésvík-Holstein árið 1776. Hann rak brauðgerð í Neustadt. Móðir Tönnies (fyrri kona Jóachims) hét María Dóróthea, fædd 1780 einnig í Krempe, Slésvík-Holstein.
Tönnies Daníel var því af þýskum ættum. Kona hans var María Elizabeth (fædd Abel, 2. mars 1799) en hún var ættuð frá Helsingjaeyri á Sjálandi og var því af dönskum ættum. Þau gengu í hjónaband haustið 1827.
Á þeim árum sem Tönnies var að nema bakaraiðn var meira en helmingur bakara í Kaupmannahöfn Þjóðverjar en talið er að María Elizabeth hafi verið dóttir bakarmeistarans sem að Tönnies hafi starfað hjá í Kaupmannahöfn.
Í Kaupmannahöfn fæddust börn þeirra hjóna, Wilhelm Georg Theodor 30. ágúst árið 1828 og Jóhanna Katharína Jakobína 23. maí árið 1830. Jóhanna giftist hér í Reykjavík árið 1855, Gottfred nokkrum Klentz og eignuðust þau ekki afkomendur eftir því sem næst verður komist. Wilhelm Georg Theodor, sem var bakari eins og faðir hans, lést ungur að árum hinn 13. ágúst árið 1871. Hann var kvæntur Johanne Lovise Bernhöft (fæddri Bertelsen), barnsmóðir hans var Sigríður Sigurðardóttir.
Hélst Tönnies ávalt vel á fólki í bakaríinu og starfaði m.a. fyrsti sveinninn, Johan Heilmann, fæddur 14. nóvember 1809, hjá honum allt til dauðadags 22. apríl 1870. Við lát hans arleiddi hann Tönnies að öllum eigum sínum (sem voru töluverðar 5350 ríkisdalir) og var hann lagður til hinstu hvílu í grafreit Bernhöfts fjölskyldunnar í Hólavallagarði. Annar maður starfaði lengi hjá bakaríinu sen aðstoðarmaður, Jón Gizurarson – kallaður “kis, kis. Jón var fæddur 18. júlí 1810. Hann starfaði einnig alla tíð í bakaríinu og var trútt og ötult hjú. Hann var karakter mikill og töluvert fyrir sopann en drykkjan ku hafa ágerst með árunum. Jón lést 5. febrúar 1880.
María Elizabeth lést 26. september 1875
Auk starfa sinna við bakaríið var Tönnies Daníel bæjarfulltrúi í Reykjavík til margra ára og hann var elsti borgari Reykjavíkur er hann lést hinn 10. júní árið 1886.