Sigurður Bergsson var fæddur í Hafnarfirði 22. júlí 1909. Hann hóf bakaranám hjá bróður sínum, Magnúsi Bergsyni, í Magnúsarbakaríi 16 ára gamall og lauk hann sveinsprófi 6. júní 1928. Árið eftir sigldi Sigurður til Kaupmannahafnar til frekara náms í bakaraiðn. Að námi loknu, árið 1931, sneri hann aftur til starfa hjá bróður sínum Vestmannaeyjum en þremur árum síðar heldur Sigurður aftur út, en nú til Þýskalands. Þar settist hann á skólabekk í frægasta konditoriskóla Þýskalands, Bernhard Lambrecht privatschule für neue Konditoreikunst” í Wolfenbüttel og lauk þar námi sem konditor með hæstu einkunn. Alla tíð hélt hann góðu sambandi við sinn gamla kennara og læriföður, Bernhard Lambrecht.
Þegar Sigurður kom heim frá Þýskalandi fékk Vilhjálmur Þór, kaupfélagsstjóri hjá KEA, hann til að hanna og koma á fót nýju bakaríi á Akureyri og starfaði hann þar í 3 ár sem forstöðumaður. Eftir að hann sagði starfi sínu lausu hjá KEA flutti Sigurður til Reykjavíkur opnaði lítið bakarí og kökugerð þann 8. október 1941 á Nönnugötu, sem hann nefndi Brauð og kökugerð Sigurðar Bergssonar. Daníel Bernhöft, bakarameistari í Bernhöftsbakarí, frétti af þessum unga og efnilega bakara og stakk upp á því við Sigurð að þeir sameinuðu krafta sína í stað þess að berjast um brauðmolana. Sigurður flutti sig þá yfir í Bernhöftsbakarí og vann þar um hríð uns Daníel lést. Sigurður keypti síðar bakaríið af ekkju Daníels árið 1944.
Sigurður Bergsson var ekki venjulegur bakari heldur hafði hafði alveg ótrúlegan áhuga á iðn sinni og var fagmaður á heimsmælikvarða. Fáir bakarameistarar hafa búið yfir annari eins framsýni og nýjungagirni og var hann mörgum áratugum á undan sinni samtíð. Hann lét smíða fyrsta hvíliskápinn og fyrsta stikkofninn á Íslandi en þetta voru tæki sem hann hafði séð úti í Þýskalandi á fagsýningum bakara. Fékk hann Rafha í Hafnarfirði til verksins en þeir höfðu einnig smíðað gamla steinofninn á Bergstaðastræti 14 mörgum áratugum áður.
Sigurður var mjög virkur í félagsstörfum alla sína tíð og var hann lengi í framlínu bakarameistara í Reykjavík. Hann var fyrsti formaður Landssambands bakarameistara við stofnun þess 1958 og gegndi hann því starfi í 12 ár. Sigurður var sæmdur gullmerki LABAK árið 1978, á 20 ára afmæli þess, fyrir vel unnin störf í þágu bakarastéttarinnar.
Sigurður gekk að eiga Klöru Bergsdóttur þann 5. janúar 1945 og eignuðust þau tvær dætur Elnu Sigrúnu Sigurðardóttur, fædda 1945 og Úllu Brynhildi Sigurðardóttur, fædda 1946. Sigurður varð bráðkvaddur á heimili sínu þann 2. júlí 1982, 72. ára að aldri.