Peter Cristian Knudtson kaupmaður hafði veg og vanda að stofnun Bernhöftsbakarís með byggingu húsa í Torfunni svo kölluðu, en eitt af þeim var með bakaraofn. Hús þessi voru tilbúin árið 1834 og þá fékk hann erlendan bakarameistara að nafni Tönnies Daniel Bernhöft til að sjá um rekstur bakarísins. Berhöft þessi var þýskur og fæddur í Nuestadt í Holtsetalandi, 10. júlí 1797. Hann kom hingað til lands ásamt konu sinni og syni um miðjan september 1834. Einnig var í för með Bernhöft, bakarasveinn að nafni Johan Ernst Wilhelm Heilmann, þá 25 ára gamall, og starfaði hann óslitið hjá Bernhöft uns hann dó 22. apríl 1870.
Hófst rekstur brauðgerðarinnar 25. september 1834 og lengi framan af var ekkert bakað nema rúgbrauð, sigtibrauð, franskbrauð, súrbrauð og landbrauð. Einnig voru bökuð rúnnstykki eftir pöntun sem og bakað var hart brauð, skonrog, tvíbökur og kringlur. Af sætabrauði var framan af ekkert bakað nema þá hunangskökur og þurrar kökur, svonefndar tveggja aura kökur. Í kringum 1840 var fyrst farið að baka vínarbrauð og bollur. Vöruúrvalið í bakaríinu jókst jafnt og þétt og varð fjölbreyttara eftir því er nær dróg aldamótunum 1900.
Brauðið var handhnoðað í deigtrogum úr 600-700 pundum af mjöli, en síðan var það látið liggja í trogunum í 2-3 stundir og loks var það mótað í brauð. Brauðin voru eftir það látin upp á loft í svo nefndan þurrkofn, sem væri sambærilegur við hefskápa nútímans. Seinna var bætt við vatnsgufu í þurrkofninn til að verjast ofþornun á brauðskorpunni. Brauðin voru síðan bökuð í mókynntum bakarofni, að danskri fyrirmynd. Talið er að þurft hafi 7 hesta af mó til þess að kynda hann upp í hvert sinn og mestur mórinn var tekinn í Vatnsmýrinni suður frá Grænuborg. Löng leið er þaðan ofan í bakaríið og hefði orðið tafsamt að flytja allan þennan mó heim á hestum. Bernhöft tók því á það ráð að leggja akveg frá bakaríinu suður í mýrina og var sá vegur kallaður móvegur. Lögðu þeir þennan veg með eigin hendi, Daníel gamli Bernhöft, og vinnumaður hans Jón Gizurarson, kallaður “kis kis. Var mónum ekið á kerru, sem var einasti vagninn í Reykjavík, og þótti hið mesta þarfaþing.
Bakaríið, eða brauðgerð eins og það var kallað þá, var í eigu Knudtson til 1845 er hann seldi Bernhöft húsnæðið og reksturinn á 8000 ríkisdali. Þó er talið að Bernhöft hafi verið búinn að leigja reksturinn í einhvern tíma áður. Um það leyti var nafni fyrirtækisins breytt í Bernhöftsbakarí sem það heitir enn. Fram til 1868 var Bernhöftsbakarí eina bakaríið á Íslandi, en það ár var stofnað braugerðarhús á Akureyri.
Tönnies Daniel Bernhöft rak bakaríið allt til dauðadags, 10. júní árið 1886 en þá tók sonarsonur hans, Daníel Gottfedt Bernhöft, við rekstrinum. Daníel yngri nam iðninina í bakaríinu hjá afa sínum en fór svo til Danmerkur til frekara náms í kökugerð. Sonur Daníels yngra Wilhelm Bernhöft, fæddur 22. júlí 1889, lærði einnig bakstur og síðar kökugerð í Danmörku og starfaði lengi í bakaríinu en snéri sér svo að öðru.
Húsin við Bakarabrekkuna voru seld KFUM þann 1. desember 1923 en Bernhöftsbakarí leigði þau áfram uns bakaríið flutti loks á Krossmessu 1931 að Bergstaðastræti 14. Eftir að Bernhöftsbakarí flutti úr Bankastræti 2 voru stofnsettar í húsunum tvær brauðgerðir, fyrst Brauðgerð ríkisins árið 1932 og ári síðar Brauðgerð Kaupfélags Reykjavíkur.
Eftir að Daníel yngri lést seldi ekkja hans Sigurði Bergsyni bakarameistara reksturinn og húsnæðið árið 1944 og rak hann það allt til dauðadags 2. júlí 1982. Árið 1976 var Bernhöftsbakarí gert að hlutafélagi. Árið 1983 flutti verslun og kökugerð yfir í núverandi húsnæði á Bergstaðastræti 13. Voru öll brauð áfram bökuð á Bergstaðastræti 14 allt þar til í júlí 1996, er öll starfsemin var flutt yfir í núverandi húsnæði. Frá árinu 2004 hefur bakaríið gengið í gegnum víðtækar endurbætur. Allur tækjakostur Bernhöftsbakarís hefur verið endurnýjaður til að uppfylla ströngustu kröfur sem gerðar eru til handverksbakara í dag. Bernhöftsbakarí ehf er enn í meirihluta eigu afkomenda Sigurðar Bergssonar.
Heimildir: Stuðst var við munnmælasögur úr bakaríinu sem og bókina “Aldarminning brauðgerðariðnar á Íslandi, 1834 – 1934.
Samantekt:
Birgir Þór Guðjónsson
Sigurður Már Guðjónsson